Diacre fer ekki fet

Corinne Diacre.
Corinne Diacre. AFP/Jean-Francois Monier

Corinne Diacre, þjálfari franska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst ekki hafa í hyggju að segja starfi sínu lausu þrátt fyrir gagnrýni í sinn garð.

Varnarmaðurinn reynslumikli, Wendie Renard, og sóknarmaðurinn öflugi, Kadidiatou Diani, hafa báðar tilkynnt að þær hyggist ekki spila fyrir franska landsliðið á meðan Diacre er þar við stjórnvölinn.

Er þjálfarinn sagður harðstjóri mikill og er það ein af ástæðunum fyrir því að Renard og Diani hugnast ekki lengur að spila fyrir hana.

HM 2023 er handan við hornið, hefst næstkomandi júlí, og kveðst Diacre ekki ætla að láta undan utanaðkomandi þrýstingi. Þvert á móti telur hún gagnrýni í sinn garð vera hluta af ófrægingarherferð.

„Í meira en tíu daga hef ég þurft að sitja undir ófrægingarherferð sem er stórundarleg hvað ofbeldi og óheiðarleika varðar.

Andstæðingar mínir eru ekkert að draga í land og gefa sannleikanum engan gaum á meðan þeir ráðast gegn persónulegum og faglegum heilindum mínum, fjórum mánuðum áður en heimsmeistaramótið hefst,“ sagði Diacre í yfirlýsingu sem AFP birti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert