Edin Dzeko, leikmaður Inter Mílanó á Ítalíu, er reyndasti leikmaðurinn í landsliðshópi Bosníu sem tilkynntur var í dag fyrir leikina gegn Íslandi og Slóvakíu í undankeppni Evrópumótsins 2024 sem fara fram 23. og 26. mars.
Ísland sækir þá Bosníumenn heim til Zenica og leikur síðan útileik gegn Liechtenstein þremur dögum síðar.
Dzeko, sem er 36 ára gamall, skoraði 50 mörk í 130 leikjum fyrir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á árunum 2011 til 2015 og varð tvisvar enskur meistari með liðinu. Hann hefur frá þeim tíma skorað 105 mörk í 260 leikjum í ítölsku A-deildinni fyrir Roma og Inter.
Dzeko er jafnframt bæði leikja- og markahæsti leikmaðurinn í sögu Bosníu en hann hefur skorað 64 mörk í 126 landsleikjum. Hann er í sérflokki í markaskorun liðsins en næsti maður á eftir honum hefur skorað 28 mörk.
Miralem Pjanic, næstþekktasti og næstleikjahæsti leikmaður Bosníu, verður hins vegar ekki með vegna meiðsla. Hann hefur spilað 108 landsleiki og lék áður m.a. með Barcelona, Juventus og Roma. Einnig vantar Muhamed Besic, miðjumann Ferencváros í Ungverjalandi, en hann hefur spilað 47 landsleiki.
Sead Kolasinac, varnarmaður Marseille, er annað stærsta nafnið í leikmannahópi Bosníu en hann er 29 ára gamall, lék með Arsenal í fimm ár, og á 51 landsleik að baki.
Landsliðsþjálfari Bosníu, Faruk Hadzibegic, valdi í dag 25 leikmenn fyrir leikina tvo.
Leikmenn bosníska liðsins koma víðs vegar að úr Evrópu og spila með liðum í Tyrklandi, Kýpur, Þýskalandi, Frakklandi, Serbíu, Spáni, Englandi, Ungverjalandi, Austurríki, Belgíu og Sviss, en aðeins einn þeirra spilar með bosnísku félagi.