Ítalíumeistarar AC Milan tryggðu sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla með því að gera markalaust jafntefli við Tottenham Hotspur í 16-liða úrslitum keppninnar í kvöld.
AC Milan vann fyrri leikinn í Mílanó fyrir þremur vikum 1:0 og einvígið þar með 1:0.
Í kvöld vildi boltinn ekki inn og þrátt fyrir að Tottenham hafi misst Cristian Romero af velli með rautt spjald þegar hann fékk sitt annað gula spjald á 78. mínútu fengu heimamenn frábært færi til þess að skora í uppbótartíma en Mike Maignan varði þá skalla Harry Kane laglega.
Í næstu sókn fékk varamaðurinn Divock Origi tækifæri til þess að gera endanlega út um einvígið fyrir AC Milan en skot hans úr vítateignum fór í stöngina.
Það kom þó ekki að sök og AC Milan er komið áfram.