Sagði af sér eftir aðeins tíu leiki

José Pékerman faðmar James Rodríguez eftir tap Kólumbíu fyrir Brasilíu …
José Pékerman faðmar James Rodríguez eftir tap Kólumbíu fyrir Brasilíu á HM 2014. AFP

Argentínski knattspyrnustjórinn José Pékerman hefur látið af störfum sem þjálfari karlalandsliðs Venesúela eftir að hafa aðeins stýrt liðinu í tíu leikjum yfir 15 mánaða skeið.

Samkvæmt AP ákvað hinn reynslumikli Pékerman, sem er 73 ára gamall, að segja upp starfi sínu vegna ósættis.

Ósættið stafaði meðal annars af ógreiddum launum og að starfsaðstæður hafi ekki verið með viðunandi hætti.

Samningur hans átti að renna út sumarið 2026.

Forveri Pékermans, José Peseiro, hafði áður látið hafa eftir sér að hann hafi sagt upp vegna vangoldinna launa.

Undir stjórn Pékermans vann Venesúela fimm leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði fjórum, þar á meðal 0:1 fyrir Íslandi í vináttulandsleik síðastliðið haust.

Hann hefur komið víða við og stýrði til að mynda Argentínu á HM 2006 og Kólumbíu á HM 2014 og 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert