Staðfesti viðræður við föður Messi

Lionel Messi býr sig undir leik með París SG gegn …
Lionel Messi býr sig undir leik með París SG gegn Bayern München í Meistaradeildinni í kvöld. AFP/Franck Fife

Joan Laporta, forseti spænska knattspyrnustórveldisins Barcelona, hefur staðfest að hafa rætt við Jorge Messi, föður Lionels Messi, en þrálátur orðrómur hefur verið um að argentínski snillingurinn snúi aftur til Barcelona í sumar eftir tvö ár með París SG.

Messi fór frá Barcelona sumarið 2021 eftir langan og einstaklega farsælan feril þar. Laporta tók þá ákvörðun að semja ekki við hann að nýju vegna erfiðrar fjárhagsstöðu félagsins en hefur ítrekað sagt að hann sjái mikið eftir Argentínumanninum.

Laporta staðfesti við spænska fjölmiðla að hann hefði hitt Jorge Messi. „Við ræddum um heimsmeistarakeppnina og um að setja upp heiðursleik fyrir Leo. Hann er leikmaður PSG þessa stundina svo ég vil ekki ræða um hvort það komi til greina að hann snúi aftur,“ sagði Laporta.

„Ég varð að taka ákvörðun, og félagið var númer eitt. Við stóðum illa á þeim tíma og ég er enn leiður yfir þessu. Ég varð að velja á milli og ég valdi félagið,“ sagði Laporta og kvaðst eftir það hafa hitt Lionel Messi í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert