Annar velskur reynslubolti hættur með landsliðinu

Alex Pearce, Fernando Torres og Chris Gunter eigast við í …
Alex Pearce, Fernando Torres og Chris Gunter eigast við í leik Reading og Chelsea fyrir rúmum áratug. AFP/Glyn Kirk

Velski knattspyrnumaðurinn Chris Gunter hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna eftir 15 ára feril með landsliðinu.

Þetta tilkynnti hann á Twitteraðgangi sínum. Áður höfðu reynsluboltarnir Gareth Bale, sem hætti reyndar alfarið knattspyrnuiðkun, og Joe Allen, nýverið tilkynnt að landsliðsskórnir væru komnir upp í hillu.

Gunter, sem er 33 ára bakvörður, lék með Wales frá árinu 2007 og alls urðu landsleikirnir 109, þó engin hafi mörkin verið.

Hann er nú á mála hjá Wimbledon í ensku D-deildinni en lék stærstan hluta ferilsins í B-deildinni með Reading og Nottingham Forest.

Gunter, sem lék til skamms tíma með Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni, var í leikmannahópi Wales þegar liðið fór alla leið í undanúrslit á EM 2016. Einnig var hann í lokahópunum á EM 2020 og HM 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert