Arsenal sótti jafntefli til Portúgals

Arsenal fagnar marki í kvöld.
Arsenal fagnar marki í kvöld. AFP/Filipe Amorim

Sporting frá Lissabon og Arsenal skildu jöfn, 2:2, í spennandi og skemmtilegum fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildar karla í knattspyrnu í Lissabon í kvöld.

Franski miðvörðurinn William Saliba kom Arsenal í forystu um miðjan fyrri hálfleikinn með skalla eftir hornspyrnu Fábio Vieira frá hægri.

Á 34. mínútu svaraði Sporting í sömu mynt þegar miðvörðurinn Goncalo Inácio skoraði með góðum skalla eftir hornspyrnu Marcus Edwards frá hægri.

Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik sneri Paulinho taflinu við fyrir Sporting þegar hann renndi boltanum í netið af stuttu færi eftir að Matt Turner hafði varið skot Pedro Goncalves.

Skömmu síðar, á 62. mínútu, varð Japaninn Hidemasa Morita fyrir því óláni að skora sjálfsmark og staðan var því orðin jöfn að nýju.

Bæði lið fengu góð færi til þess að bæta við mörkum en fjögurra marka jafntefli að lokum var niðurstaðan.

Þremur leikjum til viðbótar er lokið í 16-liða úrslitunum.

Roma fékk Real Sociedad í heimsókn og vann góðan 2:0-sigur.

Stephan El-Shaarawy kom Roma á bragðið eftir 13 mínútna leik.

Marash Kumbulla innsiglaði svo sigurinn þremur mínútum fyrir leikslok.

Bayer Leverkusen mætti ungverska liðinu Ferencváros í Þýskalandi og vann sömuleiðis 2:0.

Kerem Demirbay kom Leverkusen yfir eftir aðeins tíu mínútna leik.

Edmond Tapsoba tvöfaldaði svo forystuna fjórum mínútum fyrir leikslok.

Union Berlín og nafni félagsins, Union St. Gilloise, gerðu 3:3-jafntefli í mögnuðum leik í Berlín.

Victor Boniface skoraði tvívegis fyrir St. Gilloise og Yorbe Vertessen komst einnig á blað.

Josip Juranovic, Robin Knoche og Sven Michel skoruðu mörk Union Berlín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert