Það er ekki raunhæft að halda heimsmeistaramót karla í fótbolta aftur í nóvember og desember, nema miklar breytingar verði gerðar.
Þetta er niðurstaðan í skýrslu sem Fifpro, alþjóðasamtök atvinnuknattspyrnumanna, hafa tekið saman um heimsmeistaramótið sem haldið var í Katar á síðustu vikum ársins 2022.
Leikmenn fengu aðeins átta daga til hvíldar að mótinu loknu í staðinn fyrir 37 daga eins og er á venjulegu heimsmeistaramótsári þegar leikið í júní og júlí.
Tímasetning mótsins í Katar þótti á margan hátt vel heppnuð og Gianni Infantino forseti FIFA sagði að það kæmi vel til greina að leika aftur á þessum árstíma. Gæði leikjanna hefðu verið mun meiri en þegar leikið væri að sumarlagi í lok langs og þreytandi tímabils.
„Vetrar-HM ætti ekki að vera valkostur og það sem gerðist í vetur má alls ekki endurtaka sig. Ef fólk vill fá HM að vetrarlagi á nýjan leik þá þarf að fá allar deildir til að gjörbreyta sínu skipulagi til þess að leikmenn fái eðlilegan undirbúnings- og hvíldartíma. Að vetrarlagi myndi það þýða tveggja til hálfs þriðja mánaðar hlé á deildunum og mér finnst ólíklegt að það yrði samþykkt," sagði Jonas Baer-Hoffmann, framkvæmdastjóri Fifpro, við BBC.
Í skýrslunni segir að flestir leikmenn vilji fá að minnsta kosti fjórtán daga til undirbúnings fyrir HM og frí í 14-28 daga að móti loknu.
Bent er á að Kamil Glik hafi leikið með Benevento á Ítalíu aðeins fjórum dögum eftir að hann spilaði síðasta leik Pólverja á HM og að Raphael Varane hafi verið í byrjunarliði Manchester United átta dögum eftir úrslitaleik Frakklands og Argentínu. Varane tilkynnti á dögunum að hann væri hættur að leika með franska landsliðinu vegna álags.
Sádi-Arabía er meðal þeirra þjóða sem sækjast eftir því að halda heimsmeistaramótið árið 2030 og þar þyrfti að spila að vetrarlagi vegna sumarhitans. Portúgal og Spánn vilja halda mótið saman og þar kæmi vetrarmót til greina.