KA og Öster skildu jöfn á Spáni

Ívar Örn Árnason skoraði mark KA í dag.
Ívar Örn Árnason skoraði mark KA í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

KA og Öster, sem leikur í sænsku B-deildinni, áttust við í vináttuleik í knattspyrnu karla á Spáni í dag. Lauk leiknum með 1:1-jafntefli.

Leiknir voru fjórir 30 mínútna fjórðungar þar sem mikill fjöldi leikmanna kom við sögu hjá báðum liðum.

Ívar Örn Árnason kom KA yfir með skalla eftir hornspyrnu eftir 68 mínútna leik áður en André Gustafson jafnaði með skallamarki á 95. mínútu.

Öster er mikið Íslendingalið þar sem Álftnesingurinn Alex Þór Hauksson og Keflvíkingurinn Rúnar Þór Sigurgeirsson tóku þátt í leiknum ásamt Sebastian Hedlund, sem lék með Val um árabil.

Þá er Srdjan Tufegdzic, sem þjálfaði áður KA og Grindavík og var aðstoðarþjálfari hjá Val, knattspyrnustjóri liðsins.

Leikurinn fór fram á Pinatar-vellinum í San Pedro del Pinatar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert