Rúnar Alex Rúnarsson landsliðsmarkvörður í knattspyrnu er í liði umferðarinnar í nokkrum tyrkneskum fjölmiðlum eftir frammistöðu sína með Alanyaspor í úrvalsdeildinni þar í landi um síðustu helgi.
Rúnar Alex og félagar lögðu þá Istanbul Basaksehir að velli, 1:0, og Rúnar fékk alls staðar háar einkunnir og var m.a. með hæstu einkunn allra í báðum liðum, 7,9, hjá netmiðlinum Sofascore.
Hann er í láni hjá tyrkneska félaginu frá Arsenal á Englandi og hefur spilað hvern einasta leik síðan hann kom til Tyrklands í ágúst á síðasta ári.
Alanyaspor er í tíunda sæti af nítján liðum í deildinni.