United í góðri stöðu eftir öruggan sigur

Wout Weghorst fagnar marki sínu í kvöld.
Wout Weghorst fagnar marki sínu í kvöld. AFP/Darren Staples

Manchester United vann þægilegan sigur á spænska liðinu Real Betis, 4:1, þegar liðin áttust við í fyrri leik þeirra á Old Trafford í 16-liða úrslitum Evrópudeildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Marcus Rashford kom heimamönnum yfir eftir aðeins sex mínútna leik.

Eftir rúmlega hálftíma leik jafnaði hins vegar Ayoze Pérez, lánsmaður frá Leicester City, metin fyrir Betis.

Í síðari hálfleik skoruðu svo Antony og Bruno Fernandes með stuttu millibili áður en klukkutími var liðinn.

Átta mínútum fyrir leikslok skoraði Wout Weghorst fjórða markið og þriggja marka sigur Man. United var því niðurstaðan.

Þremur leikjum til viðbótar var að ljúka rétt í þessu.

Juventus vann Freiburg með minnsta mun, 1:0, þar sem Ángel Di María skoraði sigurmarkið snemma í síðari hálfleik.

Sevilla vann góðan sigur á Fenerbahce, 2:0.

Joan Jordan og Érik Lamela skoruðu mörk heimamanna í síðari hálfleik.

Shakhtar Donetsk og Feynoord skildu loks jöfn, 1:1.

Yaroslav Rakitskyi kom Shakhtar yfir ellefu mínútum fyrir leikslok en Ezequiel Bullaude jafnaði metin tveimur mínútum fyrir leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert