Michail Antonio skoraði bæði mörk West Ham United þegar liðið gerði góða ferð til Kýpur og lagði þar AEK Larnaca að velli, 2:0, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöldi.
Bæði mörkin skoraði Antonio í fyrri hálfleik, það fyrra á 36. mínútu og það síðara á annarri mínútu uppbótartíma hálfleiksins.
Víkingsbanarnir í Lech Poznan eru sömuleiðis í góðri stöðu eftir 2:0 sigur á Djurgården á heimavelli.
Antonio Milic og Filip Marchwinski skoruðu mörk pólska liðsins.
Staða Istanbul Basaksehir, sem sló Breiðablik út úr keppninni í haust, er sömuleiðis prýðileg en liðið hélt til Belgíu og gerði þar 1:1-jafntefli við Gent.
Stefano Okaka Chuka kom Basaksehir í forystu áður en Gift Orban jafnaði metin.
Öll úrslit gærkvöldsins:
AEK Larnaca – West Ham 0:2
Lech Poznan – Djurgården 2:0
Gent – Istanbul Basaksehir 1:1
Fiorentina – Sivasspor 1:0
Anderlecht – Villarreal 1:1
Basel – Slovan Bratislava 2:2
Sheriff Tiraspol – Nice 0:1