Hákon skrifaði undir fimm ára samning

Hákon Rafn Valdimarsson ver laglega í leik með íslenska A-landsliðinu …
Hákon Rafn Valdimarsson ver laglega í leik með íslenska A-landsliðinu gegn því sænska í janúar síðastliðnum. Ljósmynd/Alex Nicodim

Hákon Rafn Valdimarsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Elfsborg. Nýi samningurinn er til fimm ára, gildir út keppnistímabilið 2027.

Hákon Rafn, sem er 21 árs, gekk til liðs við Elfsborg um mitt tímabil 2021 og hefur á einu og hálfu tímabili leikið 19 leiki fyrir liðið í úrvalsdeildinni.

„Ég er ánægður með að endurnýja samning minn við Elfsborg. Ég nýt mín vel hérna og er reiðubúinn að hefja nýtt tímabil.

Þetta er góður staður fyrir mig að halda áfram að þróa leik minn. Allir vilja þroskast og taka skref fram á við. Hér er gott umhverfi og gott fólk í kringum liðið,“ sagði Hákon Rafn í samtali við heimasíðu Elfsborg.

Hann kvaðst ánægður með þá reynslu sem hann hafi öðlast hjá Elfsborg, sem hjálpi Hákoni Rafni að bæta sig.

„Það eru alltaf smáatriði sem þarf að fara í gegnum eftir hvern leik. Það eru góðir hlutir en líka hlutir sem þarf að bæta. En ég finn að ég er alltaf að bæta mig hér hjá Elfsborg.

Mér finnst ég hafa þroskast mikið og öðlast góða reynslu. Það er mikilvægt fyrir mig að fá leiktíma og mér finnst það hafa gengið vel. Nú er bara að halda áfram að leggja hart að sér fyrir komandi tímabil.“

Hann á fjóra A-landsleiki að baki fyrir Ísland og þrátt fyrir ungan aldur lék Hákon Rafn 65 deildarleiki fyrir uppeldisfélagið Gróttu í þremur efstu deildum Íslands áður en hann var seldur til Svíþjóðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert