Enska deildakeppnin, EFL, hefur úrskurðað topplið B-deildarinnar í knattspyrnu karla, Burnley, í félagaskiptabann eftir að félagið skilaði ársreikningum of seint til samtakanna.
Þetta kom fram í tilkynningu frá félaginu sjálfu. Þar sagði einnig að búið að væri að skila téðum upplýsingum og að breyting á endurskoðendum hafi orðið þess valdandi að skilin hafi dregist á langinn.
Í tilkynningunni kom einnig fram að félagið hafi fulla trú á því að EFL myndi ekkert athugavert sjá við reikningana og að málið myndi verða leyst í snatri.
Burnley, sem landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson leikur með, kvaðst þess fullvisst að EFL myndi aflétta félagaskiptabanninu að yfirferð á ársreikningum lokinni.