Mikilvægur sigur hjá Mikael

Mikael Anderson leikur með AGF.
Mikael Anderson leikur með AGF. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikael Anderson, landsliðsmaður í knattspyrnu, og samherjar hans í AGF frá Árósum unnu gríðarlega mikilvægan útisigur á Randers, 2:1, í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Með sigrinum komst AGF í fjórða sæti deildarinnar og tryggði sér sæti í efri hlutanum í síðustu tíu umferðum keppninnar um danska meistaratitilinn. AGF er með 32 stig eftir 21 leik en eftir 22 umferðir er deildinni skipt í tvennt og leikin tvöföld umferð innbyrðis milli sex efstu liða annars vegar og sex neðstu hins vegar.

Mikael lék á vinstri kantinum hjá AGF fram í uppbótartíma leiksins en þá var honum skipt af velli.

Nordsjælland, Köbenhavn, Viborg og AGF  verða í efri hlutanum en Bröndby, Randers, Silkeborg, OB og Midtjylland eiga fyrir höndum geysilega spennandi keppni um tvö síðustu sætin þar í 22. umferðinni um næstu helgi.

Þrjú þessara liða fara í neðri hlutann, fallkeppnina, ásamt Horsens, AaB og Lyngby.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert