AC Milan tapaði í kvöld dýrmætum stigum á heimavelli í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu, í leik sem varð sögulegur af tvennum ástæðum.
Salernitana mætti til leiks á San Siro og náði jafntefli, 1:1, en þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem félagið sækir stig þangað.
Þá var byrjunarlið AC Milan í kvöld sögulegt því í fyrsta skipti frá því Englendingurinn Herbert Kilpin stofnaði félagið árið 1899 var enginn ítalskur leikmaður í byrjunarliðinu. Hið enska heiti félagsins, Milan, er tilkomið vegna stofnandans sem gaf félaginu enskt nafn.
Olivier Giroud kom AC Milan yfir með skallamarki í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Boulaye Dia jafnaði fyrir Salernitana á 61. mínútu.
AC Milan er í fjórða sæti og í harðri baráttu um að komast í Meistaradeildina næsta vetur. Liðið er í síðasta meistaradeildarsætinu með 48 stig, einu stigi á undan Roma sem er í fimmta sæti.