Þrír leikmenn íslenskra liða, allt sóknarmenn, eru í færeyska landsliðshópnum í knattspyrnu sem tilkynntur var í morgun fyrir fyrsta leik Færeyinga í undankeppni Evrópumóts karla sem fram fer síðar í þessum mánuði.
Þetta eru Patrik Johannesen og Klæmint Olsen sem báðir leika með Breiðabliki og Pætur Petersen sem leikur með KA.
Færeyingar byrja á útileik gegn Moldóvu 24. mars en þeir spila jafnframt vináttulandsleik gegn Norður-Makedóníu þremur dögum síðar.
Þeir eru einnig í riðli með Póllandi, Tékklandi og Albaníu í undankeppninni.