Achraf Hakimi, leikmaður París SG, hefur verið valinn í landsliðshóp Marokkó í knattspyrnu þrátt fyrir að hann hafi verið ákærður fyrir nauðgun í síðasta mánuði.
Hakimi var í lykilhlutverki í liði Marokkó sem komst afar óvænt í undanúrslit heimsmeistaramótsins í Katar í lok síðasta árs.
Honum er gefið að sök að hafa nauðgað konu á heimili sínu laugardagskvöldið 25. febrúar í kjölfar þess að hún hafi neitað honum um samfarir.
Samkvæmt franska miðlinum Le Parisien hafi konunni tekist að sparka Hakimi frá sér, senda vinkonu sinni skilaboð og vinkonan svo sótt hana.
Konan dró kæru sína til baka en ákæruvaldið í París ákvað að flytja málið fyrir hennar hönd og leggja fram ákæru.
Hakimi hefur neitað öllum ásökunum og gaf félag hans PSG út yfirlýsingu til stuðnings honum áður en ákæran var lögð fram.
„Við stöndum við bakið á Achraf eins og allir Marokkóbúar. Hann er saklaus þar til sekt hans er sönnuð. Ég ræði mikið við Achraf eins og aðra leikmenn. Hann er rólegur og það skiptir mestu máli. Hann er sterkur persónuleiki, innan vallar sem utan, og við hugsum fyrst og fremst um fótboltann. Aðrir sjá um annað fyrir hann," sagði Walid Regragui landsliðsþjálfari Marokkó eftir að landsliðshópurinn var birtur.
Marokkó mætir Brasilíu og Perú í vináttulandsleikjum 25. og 28. mars en það verða fyrstu leikir liðsins eftir heimsmeistaramótið.