Ég verð dæmdur eftir árangri í Meistaradeildinni

Pep Guardiola á blaðamannafundinum í gær.
Pep Guardiola á blaðamannafundinum í gær. AFP/Paul Ellis

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, gengst við því að stjóratíð hans hjá félaginu verði dæmd út frá því hvort honum takist að vinna Meistaradeild Evrópu með liðinu eður ei.

Frá því að Guardiola tók við sumarið 2016 hefur Man. City unnið alls níu titla, þar af fjóra Englandsmeistaratitla, en ekki auðnast að vinna Meistaradeildina.

Næst komst liðið því árið 2021 þegar það tapaði fyrir Chelsea í úrslitaleik.

Á blaðamannafundi í gær var Guardiola spurður að því hvort vera hans hjá Man. City yrði skilgreind út frá því hvort honum myndi takast að vinna sterkustu keppni Evrópu.

„Ekki það að ég sé sammála því en já tvímælalaust, ég verð dæmdur út frá því. Fyrir fyrsta leik minn í Meistaradeildinni með City fullyrti fólk að ég væri hingað kominn til þess að vinna hana.

Ég hváði. Ég veit það ekki, en ég tek þessu. Hvað sem ég geng í gegnum mun það ekki breytast,“ sagði Guardiola.

Man. City mætir RB Leipzig í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Etihad-vellinum í Manchester í kvöld. Fyrri leiknum í Þýskalandi lauk með 1:1-jafntefli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert