Haaland gekk af göflunum í Meistaradeildinni

Erling Haaland skoraði fimm mörk í kvöld.
Erling Haaland skoraði fimm mörk í kvöld. AFP/Oli Scarff

Erling Haaland fór á kostum fyrir Manchester City þegar liðið tók á móti RB Leipzig í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í knattspyrnu á Etihad-vellinum í Manchester í kvöld.

Leiknum lauk með stórsigri City, 7:0, en Haaland gerði sér lítið fyrir og skoraði fimm mörk í leiknum fyrir City sem er komið áfram í 8-liða úrslitin, samanlagt 8:1.

Haaland kom City yfir strax á 22. mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir að boltinn hafði farið í hönd Benjamins Henrichs innan teigs.

Haaland bætti við öðru marki sínu á 24. mínútu með skalla þegar hann fylgdi eftir sláarskoti Kevins De Bruyne áður en hann fullkomnaði þrennuna í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar hann ýtti boltanum yfir línuna eftir að Rúben Dias hafði átt skalla í stöng.

Ilkay Gündogan bætti við fjórða marki City á 49. mínútu með frábæru skoti úr teignum áður en Haaland skoraði fjórða mark sitt og fimmta mark City af stuttu færi út teignum eftir hornspyrnu.

Haaland bætti svo við fimmta marki sínu og sjötta marki City á 57. mínútu, aftur af stuttu færi úr teignum, eftir mikinn darraðardans í vítateig Leipzig eftir hornspyrnu áður en Kevin De Bruyne skoraði sjöunda mark City með frábæru skoti, rétt utan teigs, og þar við sat.

City er því komið áfram í 8-liða úrslitin eins og áður sagði ásamt Bayern München, Benfica, Chelsea, AC Milan og Inter Mílanó.

Man. City 7:0 Leipzig opna loka
90. mín. +2 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert