Wendie Renard, fyrrverandi fyrirliði franska landsliðsins í knattspyrnu, kveðst opin fyrir því að snúa aftur í landsliðið fari svo að nýr landsliðsþjálfari ákveði að velja hana.
Renard lýsti því yfir í síðasta mánuði að hún myndi ekki gefa kost á sér í landsliðið með það fyrir augum að huga að andlegri heilsu sinni.
RMC Sport greindi frá því að á meðan Corinne Diacre væri landsliðsþjálfari myndi Renard ekki spila fyrir landsliðið.
Diacre var látin taka pokann sinn í síðustu viku og þar með hafa dyrnar opnast fyrir endurkomu.
„Það er landsliðsþjálfarans að velja mig ef ég stend mig vel með félagi mínu, en af hverju ekki?
Í eðli mínu er ég keppnismanneskja. Ég elska þessa treyju og vil gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að vinna titil í henni,“ sagði Renard í samtali við útvarpsstöðina Europe 1.