Aaron Ramsey hefur verið útnefndur nýr fyrirliði velska landsliðsins í knattspyrnu.
Gareth Bale lagði skóna á hilluna í byrjun ársins og síðan þá hafa nokkrir reynslumiklir leikmenn lagt landsliðsskóna á hilluna. Þeirra á meðal eru Joe Allen, Chris Gunter og Jonny Williams.
Því lá nokkuð beint við að hinn 32 ára gamli Ramsey, sem leikur í dag með Nice í Frakklandi, yrði nýr fyrirliði Wales enda þaulreyndur.
Hefur hann leikið 78 landsleiki fyrir Wales og skorað í þeim 20 mörk.
Ramsey hefur tekið þátt á þremur stórmótum með liðinu; EM 2016, EM 2020 og HM 2022.