Gift Orban, tvítugur nígerískur sóknarmaður, skoraði þrennu á aðeins fjórum mínútum fyrir belgíska liðið Gent í Sambandsdeildinni í fótbolta í Tyrklandi í dag.
Gent sækir þar heim lið Istanbul Basaksehir, sem sló einmitt Breiðablik út snemma í keppninni á síðasta ári, en liðin gerðu jafntefli, 1:1, í fyrri leiknum í Belgíu.
Eftir markalausar 30 mínútur skoraði Orban þrennu á fjórum mínútum, 31., 32. og 34. mínútu leiksins, og félagi hans, Hugo Cuypers, bætti við marki á 37. mínútu.
Staðan í hálfleik er því 4:0 fyrir Gent og liðið á næsta víst sæti í átta liða úrslitum keppninnar þó enn séu 45 mínútur eftir af einvígi liðanna.
Orban er búinn að vera sjóðandi heitur undanfarið því hann skoraði fjögur mörk fyrir Gent gegn Zulte-Waregem í stórsigri, 6:2, í belgísku A-deildinni á sunnudaginn, og gerði líka mark liðsins í fyrri leiknum gegn Basaksehir.
Samtals hefur þessi tvítugi piltur skorað 12 mörk í síðustu níu leikjum Gent, og það eru reyndar enn eftir 45 mínútur af þeim níunda. Á síðasta ári skoraði hann 16 mörk í 22 leikjum Stabæk í norsku B-deildinni.
Orban kom til Gent frá Stabæk í lok janúar og þetta eru einmitt fyrstu níu leikir hans með liðinu.
Uppfært:
Gent vann leikinn 4:1 og fer því áfram með 5:2 samanlagt.