Ítalska liðið Napoli hélt áfram sigurgöngu sinni í kvöld og komst í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar í fótbolta með mjög sannfærandi sigri á Eintracht Frankfurt frá Þýskalandi, 3:0, á Ítalíu.
Napoli var í góðri stöðu eftir sigur í fyrri leiknum í Frankfurt, 2:0. Þjóðverjarnir eygðu von þar til markaskorarinn nígeríski Victor Osimhen kom Napoli yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Osimhen bætti við marki á áttundu mínútu síðari hálfleiks og þá var staðan orðin 4:0 samanlagt. Ellefu mínútum síðar bætti Piotr Zielinski við marki úr vítaspyrnu og úrslitin voru þá endanlega ráðin.