Zlatan Ibrahimovic hefur verið kallaður á ný í sænska landsliðið í knattspyrnu eftir eins árs fjarveru, þó hann sé orðinn 41 árs gamall.
Zlatan er nýbyrjaður að spila á ný með AC Milan eftir slæm meiðsli í hné og hefur aðeins leikið þrjá leiki með ítalska liðinu, alla sem varamaður.
Janne Andersson, landsliðsþjálfari Svía, kveðst ekki reikna með að tefla Zlatan fram í byrjunarliðinu þegar lið hans mætir Belgíu og Aserbaídsjan í undankeppni EM síðar í þessum mánuði en hann gefi sér fleiri möguleika í sambandi við innáskiptingar.
Zlatan er markahæsti leikmaðurinn í sögu sænska landsliðsins með 62 mörk og þá er hann sjötti leikjahæstur frá upphafi með 121 landsleik.