Diljá Ýr Zomers, nýliðinn í íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu, hefur skipt um félag í Svíþjóð.
Hún hefur yfirgefið Häcken og er gengin til liðs við Norrköping en hún lék hálft síðasta tímabil í láni hjá Norrköping frá Häcken.
Þá skoraði hún fjögur mörk í 11 leikjum liðsins í sænsku B-deildinni og hjálpaði því til að komast upp í úrvalsdeildina í fyrsta skipti.
Með Häcken fékk Diljá færri tækifæri en hún skoraði eitt mark í sex leikjum með liðinu á fyrri hluta síðasta tímabils í úrvalsdeildinni.
Diljá gerir skammtímasamning við Norrköping sem gildir til 10. júlí.
Diljá er 21 árs gömul og lék 50 leiki og skoraði þrjú mörk í íslensku úrvalsdeildinni fyrir FH, Stjörnuna og Val áður en hún fór til Häcken fyrir ári síðan.
Hún spilaði sinn fyrsta A-landsleik á síðasta ári og lék síðan með landsliðinu gegn Wales og Filippseyjum á alþjóðlega mótinu á Spáni í febrúar.