Christian Pulisic, leikmaður Chelsea og bandaríska landsliðsins í knattspyrnu, telur deilur þjálfarans Gregg Berhalter og fjölskyldu Gio Reyna, leikmanns Borussia Dortmund og landsliðsins, hafa verið barnalega.
Berhalter, sem stýrði Bandaríkjunum á HM 2022 í Katar, hefur sætt rannsókn knattspyrnusambands Bandaríkjanna eftir að foreldrar leikmannsins Gio Reyna, fyrrverandi knattspyrnufólkið Claudio og Danielle, tilkynntu sambandinu að Berhalter hafi árið 1991 ráðist á eiginkonu sína, Rosalind.
Aðdragandinn að þeirri tilkynningu var sá að Berhalter fullyrti á blaðamannafundi þegar HM stóð yfir að einn leikmaður Bandaríkjanna hafi verið nálægt því að vera sendur heim vegna lélegs hugarfars þar sem hlutverk leikmannsins hjá liðinu væri minna en hann vildi.
Ekki leið á löngu þar til ljóstrað var upp um að Gio Reyna væri sá leikmaður. Gio var líkt og foreldrar sínir ósáttur við að málið hafi ratað í fjölmiðla.
„Allt sem hefur átt sér stað með Gregg hefur fyrir það fyrsta verið meðhöndlað á mjög barnalegan hátt. Mér finnst þetta barnalegt.
Þetta er eins og í barnafótbolta, fólk að kvarta yfir spiltíma. Ég vil ekki kafa of djúpt í þetta en ég segi þetta að minnsta kosti,“ sagði Pulisic í samtali við ESPN.
Samningur Berhalters rann út að loknu heimsmeistaramótinu og verður hann ekki áfram landsliðsþjálfari.
„Ég tel að Gregg hafi verið gríðarlega óheppinn að lenda í þeirri stöðu sem hann er nú í,“ bætti Pulisic við.