Portúgalski bakvörðurinn Joao Cancelo má spila með Bayern München gegn Manchester City í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu þrátt fyrir að vera að láni hjá Þýskalandsmeisturunum frá Englandsmeisturunum.
Þegar lánssamningar eru gerðir er gjarna sett ákvæði í þá sem kveður á um að viðkomandi leikmaður megi ekki spila gegn liðinu sem hann er á láni frá.
Goal.com greinir hins vegar frá því að ekkert slíkt ákvæði sé í lánssamningi Cancelo og því geti Julian Nagelsmann, knattspyrnustjóri Bæjara, nýtt sér krafta Portúgalans í leikjunum tveimur gegn Man. City í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í næsta mánuði.
Í ensku úrvalsdeildinni eru það reglur hjá deildinni að leikmenn sem eru lánaðir innan hennar megi ekki mæta liðinu sem þeir eru á láni frá.
Engar slíkar reglur eru til staðar í Meistaradeildinni og því þurfa félögin sjálf að setja ákvæði í lánssamninga.
Fari svo að Cancelo spili gegn Man. City yrði það síður en svo í fyrsta skipti sem það gerist að lánsmaður mæti félaginu sínu í Meistaradeildinni.
Philippe Coutinho skoraði tvö mörk fyrir Bayern gegn Barcelona í 8:2-sigri Bæjara í átta liða úrslitunum 2020, þegar hann var að láni frá Börsungum.
Kingsley Coman skoraði í framlengingu fyrir Bayern gegn Juventus í 16-liða úrslitum árið 2016, þegar hann var að láni frá Juventus.
Árið 2014 varði Thibaut Courtois mark Atlético Madríd þegar liðið hafði betur gegn Chelsea í undanúrslitum. Þá var hann að láni frá Chelsea.