Sveindís Jane Jónsdóttir lék allan leikinn fyrir Wolfsburg í stórsigri á botnliði Potsdam, 5:0, í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld.
Wolfsburg komst yfir í fyrri hálfleik og leiddi með einu marki allt þar til á 67. mínútu en þá var líkt og flóðgáttir hefðu opnast. Wolfsburg bætti við fjórum mörkum á síðustu rúmlega 20 mínútum leiksins og vann að lokum afar sannfærandi sigur.
Wolfsburg er á toppi deildarinnar með 42 stig, fimm stigum á undan Bayern München, sem á þó leik til góða. Potsdam er á botninum með einungis eitt stig.