Ríkjandi Svíþjóðarmeistarar Häcken eru búnir að tryggja sér sæti í úrslitaleik sænsku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla með öruggum sigri á Djurgården, 3:0, í undanúrslitum keppninnar í dag.
Bakvörðurinn Valgeir Lunddal Friðriksson var á sínum stað í byrjunarliði Häcken og fór af velli þremur mínútum fyrir leikslok, þegar staðan var orðin 3:0.
Häcken mætir Mjällby í úrslitaleiknum en hann fer ekki fram fyrr en eftir tvo mánuði, þann 19. maí næstkomandi.
Häcken getur þá unnið sænska bikarinn í þriðja sinn í sögu félagsins á meðan Mjällby, sem hafnaði í níunda sæti í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, freistar þess að vinna sinn fyrsta bikarmeistaratitil.