Spænska knattspyrnufélagið Sevilla hefur vikið argentínska þjálfaranum Jorge Sampaoli úr starfi knattspyrnustjóra karlaliðsins eftir aðeins fimm mánuði við stjórnvölinn.
Sevilla mætir enska félaginu Manchester United í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í næsta mánuði en þrátt fyrir gott gengi í þeirri keppni hefur það verið afleitt í spænsku 1. deildinni.
Um helgina tapaði liðið 0:2 fyrir Getafe og er í 14. sæti deildarinnar, aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.
Sevilla hefur verið tíður gestur í Evrópukeppnum á þessari öld og unnið Evrópudeildina, áður UEFA-bikarinn, sex sinnum á árunum 2006 til 2020.
Hinn 63 ára gamli Sampaoli stýrði Sevilla í 31 leik á tímabilinu, vann 13 þeirra, gerði sex jafntefli og tapaði tólf.