Lionel Messi skoraði sitt 99. mark fyrir argentínska landsliðið í knattspyrnu þegar það hafði betur gegn Panama, 2:0, í vináttulandsleik í Argentínu í nótt.
Markalaust var í leikhléi en tólf mínútum fyrir leikslok kom varamaðurinn Thiago Almada, leikmaður Atlanta United í Bandaríkjunum, Argentínu á bragðið með sínu fyrsta landsliðsmarki í sínum þriðja landsleik.
Skoraði hann eftir að hafa fylgt eftir aukaspyrnu Messi sem hafnaði í þverslánni.
Almada vakti athygli á dögunum fyrir stórkostlegt aukaspyrnumark sem hann skoraði í leik með Atlanta í bandarísku MLS-deildinni, sem sjá má hér:
Great angle of the Thiago Almada free-kick goal from last night for Atlanta United 🇦🇷⚽️ pic.twitter.com/7cGfnS9kqi
— James Nalton (@JDNalton) March 19, 2023
Messi innsiglaði svo sigurinn einni mínútu fyrir leikslok með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu.
Mörkin 99 hefur hann skorað í 173 landsleikjum.
Messi hefur nú skorað alls 800 mörk á ferli sínum með félagsliðum og landsliði.