Barcelona tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta með sannfærandi 5:1-heimasigri á Roma í seinni leik liðanna í átta liða úrslitunum.
Spænsku meistararnir unnu fyrri leikinn á útivelli 1:0 og fara því áfram í 6:1-samanlagt.
Barcelona byrjaði með látum og sænska landsliðskonan Fridolina Rolfö skoraði fyrsta markið á 11. mínútu. Mapi León bætti við öðru marki á 33. mínútu og Rolfö var aftur á ferðinni í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Asisat Oshoala bætti við fjórða marki Barcelona í upphafi seinni hálfleiks og Patricia Guijarro því fimmta á 53. mínútu. Annamaria Serturini minnkaði muninn fyrir Roma á 58. mínútu og þar við sat.