Arsenal er komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir 2:0-heimasigur á Íslendingaliði Bayern München í seinni leik liðanna á Emirates-vellinum í Lundúnum í kvöld.
Bayern vann fyrri leikinn á sínum heimavelli, 1:0, og vann Arsenal því einvígið 2:1.
Frida Maanum kom Arsenal yfir á 19. mínútu með glæsilegu skoti utan teigs og Stina Blackstenius bætti við öðru marki á 26. mínútu og þar við sat.
Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn með Bayern og fékk m.a. hæstu einkunn útispilara liðsins hjá livescore.in. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn á sem varamaður á 88. mínútu á meðan markvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir sat allan tímann á bekknum.