Leyfa ekki regnbogaböndin á HM kvenna

Regnbogabandið.
Regnbogabandið.

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur sent þátttökuþjóðunum í lokakeppni heimsmeistaramóts kvenna í sumar fyrirmæli um að allir fyrirliðar skuli bera formlegt fyrirliðaband FIFA.

Maika Fischer, framkvæmdastjóri þýska kvennalandsliðsins, sagði við Bild að þýska sambandið hefði óskað eftir undanþágu frá reglunni til þess að geta borið regnbogafyrirliðabandið en fengið synjun frá FIFA.

Fyrirliðum á heimsmeistaramóti karla í Katar á síðasta ári var bannað að bera regnbogabandið í leikjum keppninnar og var hótað gulu spjaldi í upphafi leiks ef þeir væru með það á sér.

Svíar eru mjög ósáttir við þessa niðurstöðu. „Ég held að þeir hjá FIFA eigi auðveldara með að stjórna karlaliðunum en kvennaliðunum, einhverra hluta vegna. Við erum konur og við erum frumherjar. Við viljum breyta heiminum og viljum sjá framfarir,“ sagði sænska landsliðskonan Kosovare Asllani við Aftonbladet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert