Knattspyrnumaðurinn Lionel Messi skoraði sitt 100. landsliðsmark fyrir Argentínu þegar liðið mætti Curacao í vináttulandsleik í Santiago del Estero í Argentínu í nótt en alls á hann að baki 174 A-landsleiki fyrir Argentínu.
Leiknum lauk með stórsigri Argentínu, 7:0, en Messi gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í leiknum.
Messi skoraði 100. landsliðsmark sitt strax á 20. mínútu áður en Nicolás González bætti við öðru marki þremur mínútum síðar.
Messi var aftur á ferðinni á 33. mínútu áður en Enzo Fernández skoraði fjórða markið á 35. mínútu. Messi fullkomnaði svo þrennuna á 37. mínútu.
Þeir Ángel Di María og Gonzalo Montiel bættu svo við hvoru markinu fyrir sig í síðari hálfleik og þar við sat.
Þetta var áttundi sigur heimsmeistaranna í röð en Argentína hefur aðeins tapað einum leik frá 6. júlí árið 2019, gegn Sádi-Arabíu á HM í Katar á síðasta ári.
Curacao er eyríki í Karíbahafinu, undan ströndum Venesúela, og hét áður Hollensku Antillaeyjar. Liðið er í 86. sæti á heimslista FIFA, fyrir ofan kunnari knattspyrnuþjóðir á svæðinu eins og Haíti og Trínidad Tóbagó.