Hákon Arnar Haraldsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið útnefndur bæði besti leikmaðurinn og efnilegasti leikmaðurinn í dönsku úrvalsdeildinni í marsmánuði.
Hákon hefur leikið mjög vel með FC Köbenhavn að undanförnu en hann skoraði í þremur leikjum liðsins í úrvalsdeildinni í mars ásamt því að leggja upp mark. Lið hans sækir mjög að toppliði Nordsjælland í einvíginu um meistaratitilinn og er nú aðeins einu stigi á eftir í þeirri baráttu.
Skagamaðurinn ungi, sem er aðeins 19 ára, kórónaði síðan góðan mánuð með því að skora sitt fyrsta A-landsliðsmark þegar Ísland vann Liechtenstein 7:0 í undankeppni EM.