Sveindís í undanúrslit í Meistaradeildinni

Li Mengwen varnarmaður PSG stöðvar Sveindísi Jane Jónsdóttur á síðustu …
Li Mengwen varnarmaður PSG stöðvar Sveindísi Jane Jónsdóttur á síðustu stundu í leiknum í Wolfsburg í kvöld. AFP/Odd Andersen

Sveindís Jane Jónsdóttir og samherjar hennar í þýska meistaraliðinu Wolfsburg eru komnar í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir jafntefli á heimavelli við París SG í kvöld, 1:1.

Wolfsburg vann fyrri leikinn í París, 1:0, og styrkti stöðuna með því að komast yfir á 20. mínútu leiksins í dag þegar Alexandra Popp skoraði eftir sendingu frá Felicitas Rauch.

Kadidiatou Diani jafnaði metin fyrir PSG tíu mínútum síðar og þar við sat. Wolfsburg vann einvígið 2:1 og mætir Arsenal í undanúrslitum.

Sveindís Jane lék með Wolfsburg fram í uppbótartíma þegar henni var skipt af velli en hún átti hörkuskot í þverslána á marki PSG í leiknum.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir sat á varamannabekk PSG allan tímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert