Xavi, knattspyrnustjóri Barcelona, svaraði spurningum blaðamanna á fundi fyrir leik liðsins gegn Elché í kvöld. Á meðal þess sem hann var spurður út í voru ummæli föður Ansi Fati, sem hefur lítið fengið að spreyta sig á leiktíðinni.
Bori Fati, faðir Ansi Fati, tjáði sig í spænskum fjölmiðlum í vikunni og sagði son sinn þurfa að skipta um félag, ef hann fengi ekki fleiri tækifæri í byrjunarliði Barcelona.
Ansi Fati er yngsti markaskorarinn í sögu Barcelona og byrjaði að leika með aðalliðinu þegar hann var aðeins 16 ára gamall. Fati hefur hins vegar mikið þurft að sitja á bekknum á yfirstandandi leiktíð.
„Hann er rólegur og einbeittur. Eina sem skiptir mig máli er hann, en ekki faðir hans eða fylgdarlið,“ sagði Xavi.