Alfreð ekki meira með á tímabilinu

Alfreð Finnbogason leikur ekki meira með Lyngby á tímabilinu.
Alfreð Finnbogason leikur ekki meira með Lyngby á tímabilinu. Ljósmynd/Alex Nicodim

Knattspyrnumaðurinn Alfreð Finnbogason leikur ekki meira með danska úrvalsdeildarfélaginu Lyngby á þessari leiktíð.

Þetta kom fram í samfélagsmiðlum danska félagsins í dag en Alfreð, sem er 34 ára gamall, fór úr axlarlið í leik Lyngby og Silkeborg í úrvalsdeildinni í gær.

Framherjinn var í byrjunarliði Lyngby í leiknum, sem lauk með 1:1-jafntefli en Alfreð fór meiddur af velli á 57. mínútu í stöðunni 1:1.

„Íslendingurinn verður frá í sex vikur og því má gera ráð fyrir því að hann spili ekki meira það sem eftir lifir tímabilsins,“ segir í tilkynningu danska félagsins.

Framherjinn gekk til liðs við Lyngby á frjálsri sölu síðasta haust eftir sex ár í herbúðum Augsburg í Þýskalandi.

Ekki í leikformi í landsleikjahléinu

Hann hefur skorað þrjú mörk og lagt upp önnur þrjú mörk í tíu leikjum í dönsku úrvalsdeildinni á tímabilinu en Lyngby er sem stendur í neðsta sæti fallriðils deildarinnar með 17 stig, 6 stigum frá öruggu sæti, en tvö neðstu liðin falla um deild.

Þetta eru einnig slæmar fréttir fyrir íslenska landsliðið en næstu leikir liðsins eru gegn Slóvakíu, hinn 17. júní, og Portúgal, hinn 20. júní, í J-riðli undankeppni EM 2024 en báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

Alfreð ætti að vera orðinn góður af meiðslunum þegar landsliðið kemur saman en þar sem hann missir af restinni af tímabilinu í Danmörku er óvíst í hversu góðu leikformi hann verður.

Framherjinn á að baki 65 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað 15 mörk en hann var í lokahóp íslenska landsliðsins á EM 2016 í Frakklandi og HM 2018 í Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert