Ferguson fær loks verðlaunapening 40 árum síðar

Hinn 81 árs gamli Sir Alex Ferguson var nýverið vígður …
Hinn 81 árs gamli Sir Alex Ferguson var nýverið vígður inn í frægðarhöll ensku úrvalsdeildarinnar. Ljósmynd/Premier League

Skoska goðsögnin Sir Alex Ferguson fær loks verðlaunapening í hendurnar eftir að hafa stýrt Aberdeen til magnaðs sigurs á Real Madríd í Evrópukeppni bikarhafa fyrir rétt tæplega 40 árum síðan.

Ekki væsti um Ferguson á þjálfaraferlinum þar sem hann er sigursælasti knattspyrnustjóri sögunnar. Liðin sem hann stýrði unnu alls til 49 titla en þrátt fyrir það var honum ekki veittur gullverðlaunapeningur fyrir sigur Aberdeen í maí árið 1983.

Einungis byrjunarliðsmenn og fimm varamenn Aberdeen í leiknum fengu verðlaunapeninga fyrir sigurinn.

Undanfarin ár hefur arfleifðarsjóður Aberdeen, AFC Heritage Trust, unnið hörðum höndum að því að leiðrétta þetta og láta útbúa sex gullverðlaunapeninga til viðbótar.

Sú vinna hefur nú borið ávöxt þar sem Ferguson mun loks áskotnast verðlaunapeningur ásamt aðstoðarþjálfaranum Archie Knox og leikmanninum Dougie Bell, sem missti af úrslitaleiknum vegna meiðsla.

Þrír verðlaunapeningar fara þá til fjölskyldna þriggja einstaklinga sem fallnir eru frá. Þar er um að ræða Dick Donald, fyrrverandi stjórnarformann Aberdeen, fyrrverandi varaformanninn Chris Anderson og leikmanninn Teddy Scott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert