Hákon heppinn að sleppa við rautt spjald

Hákon Arnar Haraldsson í leik með íslenska landsliðinu.
Hákon Arnar Haraldsson í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Alex Nicodim

Jacob Neestrup, knattspyrnustjóri FC Köbenhavn, segir landsliðsmanninn Hákon Arnar Haraldsson hafa verið heppinn að sleppa við annað gult spjald og þar með rautt í 2:1-sigri liðsins á Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni í gær.

Hart var barist enda um toppslag að ræða þar sem Köbenhavn hafði sætaskipti við Nordsjælland og fór á topp deildarinnar með sigrinum.

Sjö gul spjöld litu dagsins ljós og fannst Neestrup sem Hákon Arnar og Mads Bidstrup, leikmaður Nordsjælland, hafi báðir sloppið við að fá annað gult spjald eftir að hafa fengið eitt slíkt í fyrri hálfleik.

„Nordsjælland var heppið að missa ekki Bidstrup af velli í fyrri hálfleik. Hákon er sömuleiðis fremur heppinn að hafa ekki fengið að fjúka af velli. Þetta var leikur þar sem ég vildi ekki spila með tíu leikmenn,“ sagði knattspyrnustjórinn á blaðamannafundi eftir leik.

Báðir brutu þeir af sér í fyrri hálfleik er þeir voru á gulu spjaldi. Neestrup ákvað þá að taka miðvörðinn Davit Khocholava af velli í leikhléi þar sem hann hafði einnig fengið gult spjald í fyrri hálfleik.

Hákon Arnar lék allan leikinn fyrir Köbenhavn og Ísak Bergmann Jóhannesson kom inn á sem varamaður undir lok leiks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert