Daníel Guðjohnsen orðinn atvinnumaður

Daníel Tristan Guðjohnsen er orðinn atvinnumaður hjá Malmö.
Daníel Tristan Guðjohnsen er orðinn atvinnumaður hjá Malmö. Ljósmynd/mff.se

Knattspyrnumaðurinn efnilegi, Daníel Tristan Guðjohnsen, skrifaði í dag undir sinn fyrsta atvinnumannasamning við sænska félagið Malmö.

Daníel kom til Malmö frá Real Madrid á síðasta ári og hefur leikið vel með U19 ára liði sænska félagsins. Ekki má gera atvinnumannasamning fyrir 17 ára aldur og var leikmaðurinn því að gera sinn fyrsta atvinnumannasamning í dag.

Daníel er yngsti sonur Eiðs Smára Guðjohnsen og Ragnheiðar Sveinsdóttur. Eldri bræður hans leika einnig í Svíþjóð en Andri Lucas Guðjohnsen er leikmaður Norrköping og Sveinn Aron Guðjohnsen leikmaður Elfsborg.

Sóknarmaðurinn hefur enn ekki leikið með aðalliði Malmö, en hann var allan tímann á varamannabekk liðsins er það vann Degerfors í sænska bikarnum fyrir mánuði síðan.

Hann hefur leikið 17 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim fimm mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert