Klopp sagði nei við Sir Alex og Lewandowski

Robert Lewandowski leikur nú með Barcelona.
Robert Lewandowski leikur nú með Barcelona. AFP/Pau Barrena

Pólski framherjinn Robert Lewandowski rifjaði upp skemmtilega sögu í viðtali við þýska blaðið Bild í dag.

Lewandowski, sem hefur verið einn besti framherji Evrópu undanfarinn áratug, fékk símtal frá engum öðrum en Sir Alex Ferguson, þáverandi stjóra Manchester United, þegar hann var 22 ára og leikmaður Dortmund í Þýskalandi.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var þá stjóri Dortmund og hann var lítt hrifinn af því að Sir Alex væri að hringja í sinn helsta markaskorara.

„Ég man mjög vel eftir þessu atviki. Ég var að spila æfingaleik og var tekinn af velli í hálfleik. Í búningsklefanum sá ég að númer sem byrjaði á +44 hafði reynt að hringja í mig og senda mér skilaboð. Það var Sir Alex og hann vildi tala við mig.

Ég fann mér hljóðlátan stað og hringdi til baka. Enskan mín var ekki eins góð þá og hann var með mjög sterkan skoskan hreim. Ég þurfti að einbeita mér mjög mikið til að skilja hann en hann reyndi að tala hægar fyrir mig. Ég talaði síðan við Klopp og sagði honum að ég vildi fara til United. Hann tók það ekki í mál,“ sagði Lewandowski við Bild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert