Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi verður langlaunahæsti leikmaður heims ef hann samþykkir tilboð Al-Hilal í Sádi-Arabíu og gengur í raðir félagsins í sumar.
Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano greinir frá að félagið hafi boðið Messi samning upp á meira en 400 milljónir evra á ári.
Ítalinn bendir þó einnig á að Messi vilji ólmur halda áfram að leika í Evrópu, en samningurinn hans við París SG rennur út eftir tímabilið.
PSG hefur boðið honum samning og þá hefur hann einnig verið orðaður við Barcelona, þar sem hann lék lengi, áður en hann fór til Frakklands.
Cristiano Ronaldo fór til Al-Nassr í Sádi-Arabíu eftir HM í Katar, en samþykki Messi tilboð Al-Hilal mun hann þéna helmingi meira en Portúgalinn.