Heimir upp fyrir Ísland – Argentína á toppinn

Lionel Messi, fyrirliði Argentínu, ásamt liðsfélögum sínum með HM-styttuna.
Lionel Messi, fyrirliði Argentínu, ásamt liðsfélögum sínum með HM-styttuna. AFP/Juan Mabromata

Heimsmeistarar Argentínu eru efstir karlalandsliða í fótbolta á nýjum heimslista FIFA. Liðið var í öðru sæti á síðasta lista en fer upp fyrir nágranna sína í Brasilíu.

Heimslistinn var síðast gefinn út 22. desember, eftir heimsmeistaramótið í Katar, og komst Argentína þá upp í 2. sæti listans. Síðan þá hefur gengi liðsins verið gott og er liðið nú komið upp í efsta sætið á kostnað Brasilíu.

Frakkar fara einnig upp fyrir Brasilíu sem fellur niður um tvö sæti, í þriðja sætið. Fleiri breytingar urðu ekki á efstu 10 liðum listans.

Ísland fellur niður um eitt sæti á listanum, úr 63. sæti í það 64. af 210 þjóðum á listanum. Það eru Heimir Hallgrímsson og hans menn í Jamaíku sem fara upp fyrir íslenska liðið og í 63. sætið.

Innan Evrópu er staða Íslands óbreytt en þar er liðið í 32. sæti af 55 þjóðum.

Efstu 10 lið listans má sjá hér að neðan:

1. Argentína

2. Frakkland

3. Brasilía

4. Belgía

5. England

6. Holland

7. Króatía

8. Ítalía

9. Portúgal

10. Spánn

Heimslisti FIFA í karlaflokki í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert