Skoruðu fimm í fyrsta leik nýja þjálfarans

Eugenie Le Sommer fagnar öðru marka sinna gegn Kólumbíu í …
Eugenie Le Sommer fagnar öðru marka sinna gegn Kólumbíu í kvöld. AFP/Franck Fife

Franska kvennalandsliðið í knattspyrnu fór vel af stað í kvöld undir stjórn nýja þjálfarans, Hervé Renard, og sigraði Kólumbíu, 5:2, í vináttulandsleik í Clermont-Ferrand.

Renard tók við liðinu á dögunum eftir að Corinne Diacre var sagt upp störfum en nokkrar af helstu stjörnum franska liðsins með fyrirliðann Wendie Renard í fararbroddi, voru hættar að gefa kost á sér í liðið á meðan hún væri landsliðsþjálfari.

Wendie Renard var mætt í vörnina á ný í kvöld en staðan var lengi vel ekki góð því Kólumbía komst í 2:0 í byrjun síðari hálfleiks.

En á næstu níu mínútunum skoraði franska liðið þrjú mörk, fyrst Delphine Cascarino og síðan skoraði Eugenie Le Sommer tvívegis.

Cascarino skoraði sitt annað mark á 73. mínútu, 4:2, og Grace Geyoro innsiglaði sigurinn með marki í uppbótartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert