Landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson hefur lítinn áhuga á að fara aftur til Rússlands, þar sem hann er samningsbundinn knattspyrnufélaginu CSKA Moskvu.
Arnór skoraði 11 mörk í 66 deildarleikjum með CSKA, áður en innrás Rússa í Úkraínu hófst. Nýtti hann sér þá rétt sinn til að frysta samning sinn hjá CSKA og ganga í raðir Venezia á Ítalíu.
Þar gekk lítið og endaði hann á að fara til Norrköping í Svíþjóð, þar sem hann hafði slegið í gegn, áður en leiðin lá til Rússlands.
„Ég sé ekki fram á að fara aftur þangað eftir það sem hefur gerst. Þetta var hræðilegt, sama hvernig á það er litið. Félagið vildi allt fyrir mig gera, sem gerir þetta enn meira sorglegt,“ sagði Arnór m.a. í viðtali við hlaðvarpið TuttoSvenskan.