Arnór Ingvi Traustason og Arnór Sigurðsson skoruðu báðir fyrir Norrköping í dag þegar liðið vann glæsilegan útisigur á AIK, 3:0, í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í Stokkhólmi.
Arnór Ingvi skoraði annað mark liðsins á 40. mínútu og Arnór Sigurðsson innsiglaði sigurinn með marki á 82. mínútu. Arnór Ingvi lék allan tímann og Arnór Sigurðsson fór af velli í uppbótartímanum. Andri Lucas Guðjohnsen kom inn á sem varamaður á 71. mínútu en Ari Freyr Skúlason var ekki í hópnum.
Norrköping er komið með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina.
Hákon Rafn Valdimarsson hélt marki Elfsborg hreinu þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Varberg á útivelli. Sveinn Aron Guðjohnsen kom inn á hjá Elfsborg á 69. mínútu. Þetta er fyrsta stig liðsins á tímabilinu.
Öster, undir stjórn Srdjan Tufegdzic, vann stórsigur á Trelleborg, 5:2, í sænsku B-deildinni. Alex Þór Hauksson lék allan leikinn með Öster en Rúnar Þór Sigurgeirsson var ekki með vegna meiðsla. Böðvar Böðvarsson lék allan leikinn með Trelleborg.
Öster hefur unnið tvo fyrstu leiki sína á tímabilinu en Trelleborg hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum.