Ég er númer eitt

Elías Rafn Ólafsson þarf að setjast á bekkinn á ný …
Elías Rafn Ólafsson þarf að setjast á bekkinn á ný í dag. Ljósmynd/Robert Spasovski

Jonas Lössl, keppinautur Elíasar Rafns Ólafssonar landsliðsmarkvarðar um stöðu í byrjunarliði danska knattspyrnuliðsins Midtjylland, segir að nýr þjálfari liðsins hafi sagt sér að hann sé aðalmarkvörðurinn.

Lössl hefur verið aðalmarkvörður í vetur og Elías lék á dögunum sinn fyrsta leik síðan í september þegar Daninn tók út leikbann.

Í dag leikur Midtjylland við Lyngby og Lössl er í markinu á ný og Elías á bekknum. Í viðtali við Discovery+ fyrir leikinn var hann spurður hvort nýi þjálfarinn, Thomas Thomasberg, hafði sagt honum að hann væri á undan Elíasi í röðinni. 

Því svaraði Lössl játandi. „Við höfum átt góðar samræður nokkrum sinnum og hann hefur sagt að ég verði áfram i mínu hlutverki. Samkeppnin um stöðuna er geysilega hörð, það held ég að allir sjái, og ég er virkilega ánægður með að Thomas skyldi velja mig," sagði markvörðurinn sem spilaði tvo leiki með Brentford í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en hann var þá lánaður þangað í sex mánuði og Elías var aðalmarkvörður Midtjylland allt tímabilið.

Lössl lék áður 84 leiki í marki enska liðsins Huddersfield, 15 þeirra í úrvalsdeildinni, og var varamarkvörður Everton um skeið. Hann hefur leikið einn A-landsleik fyrir Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert